Laugardaginn 8. júlí, 2006 – Myndlist
MYNDLIST – Listasafn Reykjanesbæjar
Fjölbreytni daglegrar tilveru
alþjóðleg samsýning sjö listamanna
„Það sem er skemmtilegt við sýningu Distillhópsins er sú afslappaða afstaða sem listamennirnir hafa gagnvart efnivið sínum.“
Listhópurinn Distill samanstendur af sjö listamönnum sem eiga það sameiginlegt að hafa stundað nám í Colorado í Bandaríkjunum. Þeir hafa viðhaldið tengslunum með sýningum en hópurinn sýndi m.a. í Hafnarborg árið 2002. Þegar sýningin er skoðuð er augljóst að listamennirnir ná vel saman en þeir eru á nokkuð svipaðri línu í afstöðu sinni til listarinnar. Þeir eiga það nær allir sameiginlegt að nota hversdagslegan efnivið í listaverk sín en ná þó að skapa annan heim en þann sem upprunalega efnið felur í sér.
Vegginnsetning Patricia Tinajero-Baker úr borðfótum, stikum og hekluðum bútum er afar skemmtileg sjónrænt séð þó merking hennar sé langt í frá auðsæ. Kringlóttar „dúllur“ sem flæða niður eftir vegg og út á gólf og eru m.a. heklaðar úr myndbandsspólum er sömuleiðis sjónrænt áhugavert verk sem nýtur sín alveg án þess að reynt sé að gefa því of sterka og afmarkaða merkingu. Í list sinni leitar listamaðurinn Jaeha Yoo til myrkari hliða bernskunnar, en hann notar tuskudýr í skúlptúra sína. Rýmin sem hann skapar gefa til kynna margfeldi og endurtekningu sem í sjálfu sér er næstum ógnvekjandi. Amy Barillaro sýnir veggmyndir unnar úr sogrörum, hún skapar mynstur í naumhyggjustíl. Julie Poitras Santos vinnur með hugmyndir um flækjur, völundarhús og endurtekningu og myndverk hennar má tengja flóknum samgönguæðum samtímans. Tsehai Johnson sýnir veggverk úr postulíni, kynleg form sem minna jafnt á líkama og húsgögn, áleitin verk með innri spennu sem skapast af samblandi af fegurð og sérkennilegri líkamstilfinningu. Klippimyndir Ann Chuchvara koma á óvart í einfaldri fegurð, afar fínleg form skapa samspil ljóss og skugga. Hér er óþarfi að leita að dýpri merkingu, fagurfræðileg gildi skapa merkingu á eigin forsendum og það má líta á þessi verk sem eins konar náttúrutúlkun.
Þá eru ónefnd listaverk eina íslenska listamannsins í hópnum, Hrafnhildar Sigurðardóttur, sem hlaut Norrænu textílverðlaunin á síðasta ári. Það er kímni og fínleiki í verki hennar Nornabrjóst og plastræmur af dagblaðapökkum gefa í skyn flug tímans.
Það sem er skemmtilegt við sýningu Distill-hópsins er sú afslappaða afstaða sem listamennirnir hafa gagnvart efnivið sínum. Án þess að setja sig í stellingar eða flækja málin skapa þeir listaverk úr hversdagslegum efnum og sömuleiðis velkjast básaskiptingar á borð við leirlist, textíl eða samtímalist ekki fyrir þeim, þeir skapa einfaldlega sína list af hreinskilni og einlægni. Sá léttleiki sem hversdagleiki efniviðarins gæðir verk þeirra kemur sýningunni mjög til góða og auðveldar aðgengi áhorfenda að verkunum, sama á hvaða forsendum það er, til að fá skemmtilegar föndurhugmyndir eða velta fyrir sér eðli tímans.
Þessi skemmtilegi léttleiki nær því miður ekki alveg til textans í bæklingnum með sýningunni. Þar er falleg hugsunin um ljóð Jorge Luis Borges en heldur langsóttari eru tilvísanir í fyrirbærafræði Maurice Merlau-Ponty. Sýningin er mun skemmtilegri en þessi texti gefur til kynna og óhætt að mæla með heimsókn á hana í sumar.
Ragna Sigurðardóttir