TEXTIL – RIT 19. – 23. maí 2021
Samsýning Textílfélagsins á Hönnunarmars
Kolagötu 2, Reykjavík

Þátttakendur;
Aðalheiður Alfreðsdóttir, Andrea Fanney Jónsdóttir, Anna Gunnarsdóttir, Annamaria Lind Geirsdóttir, Ásdís Birgisdóttir, Bethina Elverdam Nielsen, Edda Mac, Herdís Tómasdóttir, Hrafnhildur Sigurðardóttir, Hrönn Vilhelmsdóttir, Judith Amalía Jóhannsdóttir, Karin María Sveinbjörnsdóttir, Kristveig Halldórsdóttir, Margrét Friðjónsdóttir, Margrét Guðnadóttir, Päivi Vaarula, Ragnheiður Björk Þórsdóttir, Rakel Blom, Sólrún Friðriksdóttir, Þorgerður Hlöðversdóttir. 

Í sýningunni er að finna verk sem eru unnin út frá smásögum, ljóðum, handritum, fréttum og auglýsingum. Textarnir eru ýmist íslenskir, þýddir, frumsamdir eða fengnir að láni. Í sumum tilvikum hafa stafir horfið eða merking orðanna breyst. Tíminn hefur breytt útliti texta og tungumálið þróast með mönnunum.

Þátttakendur hafa fundið formi stafanna annað hlutverk í munstri eða teiknað þau upp á nýjan máta með ull, tágavið eða málmþráðum. Hvort sem þeir eru að segja eigin sögu, finna sameiginlega fleti með fortíðinni eða fanga augnablik úr samtímanum eiga þáttakendur það sameiginlegt að rýna í handverkshefðir, nýta efnivið úr okkar nánasta umhverfi og skapa dýpri skilning í samtali milli listar og hönnunar

Sýningarstjórar eru Bethina Elverdam Nielsen og Edda Mac.
Sýningin er styrkt af Reykjavíkurborg.

Ásdís Birgisdóttir

 
Ó-RÓ-I
Silki organza, þrykk blaðgull og -silfur og pappír, 50x50x50 cm

Leturgerð, lestur og handrit eru hér innblástur að „Ó-RÓ-I“·

Ásdís sækir gjarnan innblástur í fornar íslenskar hefðir og handverk. Leturgerð hefur ætíð verið heillandi og verður uppspretta að verkum.


Kristveig Halldórsdóttir

 
Á milli lína, 2021. Hörtrefjar, trjákvoða, bývax, vatnslitur, sellak, indigo bómullar þráður, japanskur pappír. 116 x 135 cm.
Lífræn spor, 2021. Hörtrefjar, trjákvoða, bývax, olíulitur, indigo bómullar þráður, japanskur pappír. 104 x 135 cm.

Myndverkið er samsett úr handgerðum pappírsörkum úr hör.  Efnið er styrkt með bývaxi, trjákvoðu og japönskum pappír. Skrifað er í arkirnar með vatni og saumað í með idigio-bláum bómullarþræði sem mynda spor og línur sem segja söguna í verkunum.

Kristveig Halldórsdóttir lærði textílmyndlist í Myndlista- og handíðskóla Íslands, fór í framhaldsnám í Listiðnaðarháskólanum í Osló og lauk þaðan mastersnámi í textílmyndlist. Hún hefur haldið einskasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga innanlands og erlendis. Í mastersnáminu rannsakaði hún sérstaklega gerð handunnins pappírs úr mismunandi plöntutrefjum sem leggur mikilvægan hugmyndfræðilegan grunn að verkum hennar.


Paivi Vaarula

Sagan af lífinu
Gamalt myndaalbúm og dúkur, 49 x 28 x 6 cm

Ég hef verið að skoða kennara í textílhönnun í meira en 30 ár og hef verið að skoða margar aðferðir og þemu. Að horfa til baka, bæði sýnin og árin sem liðu, var styrkjandi ferli. Ég var að setja sýnishornin til að segja þér sögu. Lífsferð og textíl.

Sérhver dúkur segir sögu:

Gleðileg bernska og glaðir litir.
Villt ár unglings.
Bara gift og hamingjusöm.
Hectic toppár.
Ár eymdar, þunglyndis og einmanaleika.
Hugarró.

Päivi Vaarula er textíllistamaður og kennari frá Finnlandi. Hún er með MA gráðu frá Aalto háskólanum í Helsinki og hönnunarkennarapróf. Päivi bjó á Íslandi í tvö ár og kenndi í Hallormsstaðaskóla 2017 – 2019. Hún hefur sýnt á alþjóðavettvangi og í Finnlandi og á Íslandi. 2017 fékk hún styrk til að vera í Íslenskri textílsetri og það var upphaf fyrir ást á Íslandi.


Margrét Friðjónsdóttir

Fréttabrot
Dagblað, akrýl og þráður, 25 x 40 cm

Verkið er unnið út frá vangaveltum um fréttamynni, holskeflu frétta og fréttum sem gleymast. Endurnýting, áferð og samsetning ólíkra efna er ofarlega í huga.

Margrét Friðjónsdóttir útskrifaðist með diplóma í textílhönnun frá Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 2016. Margrét hefur tekið þátt í ýmsum samsýningum Textílsfélagssins. Hún er einnig hluti af tvíeykinu Klakabönd ásamt Júlíu Guðrúnu Sveinbjörnsdóttur. Þar gera þær  tilraunir með klaka, textíla, pappír, blek og textílliti sem mynda óræð myndverk. Þær settu meðal annars upp sýningu í Tjarnarbíói haustið 2018.

Margrét vinnur ull frá reyfi í spunnið band af eigin sauðfé heima í Borgarfirði þar sem hún sinnir búskap og ferðaþjónustu í stórbrotnu landslagi.

Hún hefur gert ýmsar tilraunir með önnur efni, t.d. að spinna dagblöð og nota í vefnað.


Hrönn Vilhelmsdóttir

Hversu gamalt er gamalt?
Bómull, 69 x 220 cm.

Hér er verið að vinna með mjög gamlan texta á gamalt efni.

Þetta eru gömul gluggatjöld, bómull sem ég hef handlitað og þrykkti síðan á með þrykkramma með munstri af gömlu handriti sem ég vann í tengslum við Landsbókasafn Íslands fyrir mörgum árum. Texti handritsins er illlesanlegur enda byggir hann á um 400 ára gömlu handriti og eru gloppur í upprunalega textanum.  Handritið er tekið frá kveisustreng með lækningarþulu á latínu og íslensku sem átti að reka burt kveisu, t.d. kvef eða gigt.

„Ég særi þig gigt og kveisa burt að flýja, ég mana þig, ég deyfi þig, ég drep þig kveisa.“

Í raun er mjög merkilegt að kveisustrengurinn hafi lifað af galdraöldina því yfirleitt var allt tengt “göldrum” brennt enda forboðið af kirkjunni sem þá ríkti.

Hrönn Vilhelmsdóttir textílhönnuður útskrifaðist frá MHÍ textíldeild 1990 og tók eitt ár í iðnhönnun við sama skóla 1990-1991.  Síðan þá hefur undirrituð unnið að eigin hönnun, málað og þrykkt mikið fyrir bornin en einnig unnið ýmis verkefni tengt textíl.  Verkið sem hér er til sýnis er einmitt nýtt verk unnið útfrá verkefni sem var unnið í tengslum við Landsbókasafnið þar sem málaðar voru slæður með þrykktum texta Kveisustrengsins.  Hrönn hefur einnig unnið að eigin fyrirtækjarekstri, fyrst stofnaði hún Café Loka á Skólavörðuholtinu og nú nýlega stofnaði hún Hlöðueldhúsið í Þykkvabæ.


Sólrún Friðriksdóttir

Svo mörg voru þau orð
Ull, papír og bómull, (2x) 40 x 40 x 4 cm‬

Ég byrjaði á þessu verki í lok janúar. Var með ýmsar hugmyndir varðandi þemað en renndi samt svolítið blint í sjóinn þegar ég byrjaði og úr varð einskonar óvissuverð. Svolítið eins og að lesa bók, maður byrjar að lesa og veit ekki hvernig bókin endar.  Útbjó uppistöðu á einfaldan blindramma (þrátt fyrir að eiga tvo vefstóla). Tók blaðsíður úr ýmsum gömlum bókum sem ég er að losa mig við vegna plássleysis. Klippti blaðsíður í ræmur og byrjaði að vefa. Notaði jafnframt mismunandi ullargarn sem ég hef verið að spinna undanfarið. Það var áhugavert að handfjatla þennan mismunandi pappír ýmist gamlan og gulnaðan eða hvítan og stundum glansandi, með allskyns leturgerðum. Ennfremur spennandi að fá spennandi rya-strúktúr úr mismunandi pappírnum.  Þótt mér fyndist erfitt að eyðileggja bækurnar hugsaði ég að þarna fengju þær nýtt hlutverk því enginn kæmi til með að lesa þessar bækur framar.  Ég klippti síðan vefinn úr rammanum og festi á tilbúinn blindramma.

Í seinna verkinu setti ég uppistöðuþræði úr handspunnu ullargarni beint á tilbúinn blindramma og óf í uppistöðuna með ræmum úr bókunum og ullargarni. Leitaðist við að fá mismunandi strúktúr og litbrigði. Notaði einnig ræmur þar sem voru að mestu myndir, í einn flöt og einnig  grafíkpappír sem ég málaði með silkilitum. Hnýtti að lokum litaða bómullarþræði til að fá meira líf í verkið.

Titillinn „Svo mörg voru þau orð“ vísar til þess hve mikið er þarna af orðum, á ýmsum tungumálum og þetta er það síðasta sem þessar bækur segja.

Fædd 1955  Stundaði nám við Myndlista-og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist sem myndlistarkennari 1979 Var eitt ár í textíldeild M.H.Í. og síðan eitt ár í Textilinstutet í Borås í Svíþjóð og seinna eitt ár í Meisterklasse Textilies Design í Listaskólanum í Graz í Austurríki.

Hef lengst af stundað myndlistarkennslu í grunnskólum og á ýmsum námskeiðum ásamt því að leggja stund á myndlist / textíllist.

Er búsett á Stöðvarfirði og rek þar Gallerí Snærós í tengslum við vinnustofu mína.

Ég hef haldið einkasýningar og tekið þátt í mörgum samsýningum hérlendis og erlendis.


Hrafnhildur Sigurðardóttir

Sóun III – Ótti
Fundinn textíll, 170 x 165 cm

Frá því að Hrafnhildur dvaldi í gestavinnustofu Kunstlerhaus Lukas í sjávarbænum í Ahrenshoop árið 2010, hafa listaverk hennar snúist um endurvinnslu efna þar sem hún leggur áherslu á feminisma og samfélagslega ádeilu á alþjóðlegan úrgang. Þetta byrjaði með efnunum, aðallega plasti, sem hún fann á ströndinni í Ahrenshoop. Í verkum sínum síðan þá hefur hún gagnrýnt núverandi ofnotkun á plasti, sem oftar en ekki endar í hafinu. Þetta var áður en augu almennings opnuðust fyrir þessu vandamáli um plast í höfunum, sem nú er mjög til umræðu. Verk hennar hafa verið unnin úr efnum allt frá regnkápu sjómannsins til gostappa og íspinna, blaðra og gjafaborða, fiskinet og plast bita úr sjávarútveginum, sem hún finnur við strendur Íslands, Noregs, Danmerkur og BNA.

Hrafnhildur notar þessi fundnu plaststykki og annað endurunnið efni í listaverk sín, með því að sauma stykkin saman og bætti við útsaumi og teikningum til að fullvinna verkið. Þannig býr hún til samsett myndverk úr úrgangi, sem vonandi hjálpar til við að benda á sóun samfélags okkar og stýra okkur í átt að sjálfbærari framtíð. Að þessu sinni beinir hún athygli okkar að eyðslusemi einnota gríma, nýrri tegund mengunar, sem er nú alls staðar að finna í okkar nærumhverfi. Enn ein óþarfa sóunin sem endar í náttúrunni og hafinu sem ógnar enn frekar náttúru okkar og dýralífi sjávar.

Hrafnhildur Sigurðardóttir lauk burtfararprófi frá Listaháskóla Íslands 1986. Frá árinu 1997 hóf hún nám í skúlptúr og lauk prófi frá háskólanum í Boulder í Colorado árið 2000 með MFA gráðu.
Hrafnhildur hefur tekið þátt í yfir 100 samsýningum og haldið sextán einkasýningar í sex löndum. Árið 2005 hlaut hún „Norrænu verðlaunin í textíl“ og sýndi verðlaunasýningu sína í Textíllistasafninu í Borås í Svíþjóð sem hluti af þeim verðlaunum.

Starf Hrafnhildar síðastliðinn áratug hefur snúist um endurvinnslu efna, þar sem hún leggur áherslu á samfélagslegar ádeilu og femínisma. Í verkum síðustu ára gagnrýnir hún núverandi ofnotkun umbúða, plasts og annarra efna sem lenda oftar en ekki í hafinu ásamt regnfötum sjómanna, netum, reipi osfrv. Hrafnhildur einbeitir sér þannig að endurvinnslu úrgangs bæði í efnisvali og í titlum verka hennar.

 


Edda Mac

Teppi afans.
Handlituð ull og stál. 100x180cm.

Verkið var unnið upp úr arabískri þýðingu á Hávamálum. Arabískt letur var nýtt til munsturgerðar. Tölva bjó til endanlega munstrið sem var prjónað á prjónavél.

Nafn verksins vísar til smásögu sem var skrifuð samhliða vinnslu á teppinu.

Edda Mac útskrifaðist með BA í myndlist frá Parsons árið 2012. Hún lærði einnig myndlist við Hongik háskóla í Seúl, Accademia Italiana í Flórens og textíl við Myndlistaskólann í Reykjavík.

Í verkum sínum vinnur Edda með tilbúnar aðstæður, atburði og fígúrur. Húmor og mistök ráða ferð sem á sér hvorki ákveðið upphaf né endi.


Þorgerður Hlöðversdóttir

Sagan endalausa
Jurtalitað silki og jurtalituð ull. Tvær tveggja metra langar plexigler stangir sem á eru hengdar 30×30 cm prufur

Verkið sýnir dæmi um tilraunir og endalausa leit mína að formum og litasamsetningum og hvernig hægt er leika sér með form, efni og áferð. Hér geri ég sambærilegar tilraunir bæði á silki og ull til að geta borið saman mismunandi áhrif jurtanna á hvort efni fyrir sig. Ég nota meðal annars elri, rabarbararót, laukhýði, söl og lúpínu. Einnig gerði ég tilraun með þurrkuð blöð af eucalyptus plöntum. Verkið er í raun „skissubók“ sem ég nota til að þróa litunaraðferðir mínar.

Þorgerður Hlöðversdóttir er textílhönnuður og vinnur undir merkinu BOMBYX. Hún sækir innblástur í náttúruna og nýtir íslenskar og erlendar jurtir á vistvænan hátt til að lita og þrykkja á náttúruleg efni, svo sem silki, ull, hör og bómull. Hvert verk er einstakt og getur tekið langan tíma og margar tilraunir að ná fram þeim litum og munstrum sem sóst er eftir.


Ragnheiður Björk Þórsdóttir

Brotið blað
Bómull og ull, 105 x 210 cm

Verkið Brotið blað er ofið í TC2 stafrænum vefstól og er það helgað valdeflingu kvenna í byrjun 20. aldarinnar og aftur í byrjun þeirrar 21. Verkið er unnið út frá auglýsingu um Handavinnunámskeið kvenna á Akureyri árið 1916 sem haldin voru að tilstuðlan frú Halldóru Bjarnadóttur, en þau stóðu yfir frá 1913 – 1925.

Fyrir 40 árum síðan gaf amma mín, Ragnheiður Brynjólfsdóttir klæðskeri og kennari, mér þessa rúmlega 100 ára gömlu auglýsingu ásamt öðrum gögnum frá frú Halldóru en aftan á hana hefur amma mín skrifað; ,,Þetta gæti komið sér vel síðar“, þ.e. auglýsingarblaðið.

Þar sem ég vinn mikið með texta, skrifa texta, les texta og vef texta í myndvefnaði þá var kominn tími til að vefa texta í stafrænum vefstól og reyna að ná fram aldri, misfellum og brotum í auglýsingunni en geta jafnframt lesið textann. Sennilega hefur frú Halldóra sjálf brotið hana saman í kringum 1916, en ég fékk auglýsingarblaðið í hendur fyrir 40 árum og fletti því í sundur í fyrsta sinn fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Nafn verksins Brotið blað hefur í mínum huga margskonar skýrskotun í sögu kvenna á Íslandi sl. 100 ár, sem hafa margoft ,,brotið blað” í sögunni með aðgerðum sínum t.d. með tilliti til menntunnar, kvennfrelsisbaráttunnar, pólitíkur og feminisma.

Ragnheiður Björk Þórsdóttir er fædd og uppalin á Sauðárkróki en hefur lengst af ævinnar verið búsett á Akureyri.

Ragnheiður stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóli Íslands 1980 – 1984, brautskráðist frá textíldeild 1984. Hún stundaði framhaldsnám við John F. Kennedy University 1984 – 1985; Fiber Arts program. Einnig stundaði hún nám við Háskólann á Akureyri og útskrifuð þaðan með M.Ed. í einstaklingsmiðuðu meistaranámi með áherslu á kennslufræði listgreina.

Ragnheiður hefur tekið þátt í fjölmörgum sýningum hérlendis og erlendis um langt árabil og var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2014.

Ragnheiður starfaði við Verkmenntaskólann á Akureyri í 30 ár þar sem hún meðal annars var kennslustjóri listnámsbrautar og vefnaðarkennari skólans. Síðast liðin fjögur ár hefur hún stýrt rannsókninni ,,Bridging textiles to the digital future“, sem felur meðal annars í sér skráningu á gömlum vefnaðarmunstrum inn í rafrænan gagnagrunn. Árið 2019 kom út bókin ,,Listin að vefa“ eftir Ragnheiði sem Forlagið gefur út.


Andrea Fanney Jónsdóttir

Sjálfstætt
Íslensk handspunnin ull og plexígler, 14 x 21 cm

Amma, segir dreingurinn þá. Þú ert ekki til. Þú ert bara veður í loftinu. Ég er á ferðalagi.

Sjálfstætt Fólk, Halldór Kiljan Laxness

Söguþráður ferðast um strúktúr og fangar augnablik.
Verkið er unnið út frá tilfinningu, minningu úr æsku og þrá að geta snert og skynjað eitthvað sem er ekki lengur hluti af þessari veröld. Í huga barnsins er alheimurinn abstrakt og hugarflugið gefur því vængi til að ferðast um víddir, allt er mögulegt. Með tímanum verða minningar að minningarbrotum. Hið áþreifanlega verður smátt og smátt óáþreifanlegt. Augnablik verða dýrmæt ljósbrot í huganum.

Andrea Fanney Jónsdóttir er textílhönnuður og klæðskerameistari. Hún lærði textílhönnun við Glasgow School of Art í Skotlandi og starfar sem textílhönnuður og -kennari.


Karin Maria Sveinbjörnsdóttir

Ferðasaga
Handþæft verk með blandaðri tækni, ull, silki og bómull, 42 x 42 cm (58 x 60 cm)

Hugmyndin varð til eftir ferðalag um suður og vesturland í dumbungsveðri en svo birti til öðru hvoru og fjöllin blöstu við og heilluðu.

Kennari listgreina á Listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri til fjölda ára og einnig brautarstjóri á hönnunar og textílkjörsviði sama skóla.

Karín vinnur aðallega textílverk með ýmsum aðferðum.


Aðalheiður Alfreðsdóttir

Söguþráður
Uppleysanlegu pappaefni, bómullar- og nælonþráður og pappír, 30 x 40 cm

Verkið heitir Söguþráður og er unnið út frá orðum úr sögunni Grasaferð eftir Jónas Hallgrímsson, sem er talin vera fyrsta íslenska smásagan.Nokkur orð voru valin úr sögunni og það liggja rauðir þræðir á milli orðanna sem leyfa þér að búa til þinn eiginn söguþráð.

Aðalheiður lærði fatahönnun við Köbenhavns mode- og designskole og textílhönnun við Myndlistaskóla Reykjavikur. Þetta er í annað sinn sem hun tekur þátt í samsýningu á Hönnunar Mars.


Anna Gunnarsdóttir

Litir af landi
Íslensk ull, silki og alskonar þræðir

Verkið segir stutta sögu í litum og áferðum af landinu mínu Íslandi.

Þegar ferðast er um landið er gott  að staldra við og skoða hina ýmsu litir sem birtast milli hóla og hæða í fjöllum og við ströndina því að litirnir í náttúrinni er einit af okkar dýrmætu fjársjóðum.

Anna Gunnarsdóttir textil listakona er fædd og uppalin á Akureyri. Hún er menntuð frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og Skals í Danmörk ásamt fjölda námskeiða í textíl í hinum ýmsu löndum. Verk hennar eru þrívíð textilverk og skipar ljós og skuggi mikinn þátt í þeim. Hún hefur unnið við list sína í yfir 30 ár. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga víðsvegar um heiminn með verkum sínum og hlotið viðurkenningar fyrir. Anna hefur síðastliðin 15 ár átt og rekið Hvítspóa art studio og gallery, Óseyri 2, Akureyri. Þar rekur hún sýningarsal þar sem listamönnum gefst tækifæri á að sýna verk sín. Anna var bæjarlistamaður Akureyrar 2008. Anna er félagi í SIM, Textilfélagi Íslands og PRISM, textilfélagi í London UK.


Herdís Tómasdóttir

Kross
Kartoni, túss og blýantur, 30 x 30 cm

Þróun í teikningu  á einföldu formi, þe krossi yfir í munstur ,,Áttblaðarós”, sem er íslenskt- og  alþjóðlegt munstur.

Teikningar og pappír (sem er í raun textíll) þróun frá einstökum, einföldum línum verður að alþjóðlegu  og viðurkenndu munstri.

Herdís Tómasdóttir er vefari og teiknari.


Judith Amalía Jóhannsdóttir

Stafabönd
Íslensk ull, handspunnið tog

Upphafsstafir og myndlýsingar í handritum eru nokkurn veginn eina myndlistin sem varðveitt er úr Íslandssögunni frá því fyrir 1500. Í miðaldahandritum er einnig að finna margvíslegar styttingar þar sem heil orð eru smækkuð niður í einn eða fáa stafi. Rétt eins og upphafsstafirnir eru þessar styttingar oft til marks um listfengi skrifaranna. Í þessu verki eru brot úr þessum forna myndheimi endursköpuð í nútímalegu samhengi, og er textíllinn sá miðill sem brúar bilið frá heimi handritanna og yfir til nútímans. Með verkinu er opnað á hugleiðingar um samfélag sem hefur ekki aðra myndlist en þá sem finna má í bókum. Stafalistin hefur lifað í handritunum allt til okkar daga en af textíllistinni sem varð til á sama tímabili finnst nú hvorki fjöður né fat.

Judith Amalía Jóhannsdóttir fæddist á Ísafirði árið 1980. Hún stundaði nám við Accademia di Brera í Mílanó á árunum 2007-2008 og lauk námi í textílhönnun við Myndlistaskólann í Reykjavík árið 2020. Judith Amalía var einn af stofnendum jógafatamerkisins Atala árið 2012. Hún er búsett í Reykjavík.
Í verkum sínum hefur Judith Amalía beint sjónum að íslenskri handverkshefð og stöðu hennar í samtímanum. Þráðurinn er lykilform í verkum Judithar og í þeim er leitast við að spinna þræði úr ólíkum hráefnum. Lokaverkefni Judithar frá MÍR, Milliverk, var innsetning þar sem girni og handspunnin ull voru meginuppistaðan.


Rakel Blom

Eyðieyjan
Blandaður textíl, 30 x 40 cm

Hugmyndin af sköpun Eyðieyjunnar spratt upphaflega út frá þeirri vel þekktu spurningu sem notaður hefur verið oft á tíðum til að drepa tíma „hvaða þrjá hluti myndu taka með þér á eyðieyju?“.

En ef skoðað er nánar svörin okkar í gegnum árin eru þau oft á tíðum mjög táknræn um hvað er að gerast í lífinu hverju sinni út frá þessum þremur hlutum sem við teljum mikilvægasta hverju sinni, þráum að umkringja okkur af eða hver hugmyndin af lífi okkar sé hverju sinni. Það hafa eflaust einhverjir ætlað á einhverjum tímapunkti lífsins að taka með sér fyrrverandi kærast/kærustu, kassa af bjór og plötuspilara en næst þegar við erum spurð væri það kannski góð bók, kassa af uppáhalds súkkulaðinu og hengirúm…..

Hugmyndin af þessum verkum um Eyðieyjuna er búið að fylgja mér um þó nokkurn tíma og hafa útfærslur hennar þróast og breyst í fjölmargar áttir en að lokum var sú átt tekin að vinna út frá því að skapa þína eigin eyju. En með því að taka aukna stjórn á umhverfi okkar, aðstæðum og/eða veita okkur aukna meðvitund á því sem er að gerast í kringum okkur. Hvernig sérðu fyrir þér eyjuna þína, væriru til í að breyta einhverju við hana, hvernig væri drauma eyjan þín eða værirðu kannski til í að vera á einhverri annarri eyju?

Eyðieyjan er sköpuð með því að blanda saman fjölbreyttum textílaðferðum allt frá handsaumi til stafræns prents.

Rakel Blom er fata- og textílhönnuður sem túlkar daglegar vanga velur með blönduðum textíl aðferðum á litríkan hátt í þeim tilgangi að bæta við léttleikann og gleðina. Á sama tíma leitast hún við að veita áhorfendum svigrúm til að spegla sínar eigin hugsanir og hugmyndir í verkinu, kafað aðeins dýpra og haldið áfram að skoða, sjá meira og uppgötva.


Margrét Guðnadóttir

Trékver
Tágum, tré, pappírssnæri og handunnum pappír. Samanstendur af 4 einningar af 183 x 10-20 cm

Síðurnar í trékverinu leitast við að flétta saman sögu mína og trésins, þar sem síðurnar eiga samtalið, ofið, fléttað, tálgað, skorið og klippt, og finna nýja farvegi fyrir óvænt efnistök.

Flæðið milli aðferðafræði og náttúrulegra efnistaka gefa verkinu heildræna áferð.

Í verkinu öðlast tré, tágar og pappír frelsi til leiks og sköpunar.

Margrét Guðnadóttir starfandi hönnuður í Reykjavík er annar stofnandi og enn rekstraraðili að Kirsuberjatrénu þar sem rekin hefur verið verslun með hönnun, list og handverk í 28 ár.

Spiladósir, lampar, körfur og verk úr tágum og tré og endurunninn textíll hafa verið fyrirferðamest í hönnun Margrétar.

Margrét stundaði nám í Connecticut USA  í vefnaði körfu/tágavefnaði og hönnun í 6 ár, ásmt fjölda námskeiða á Haystack og öðrum sumarskólum á síðustu áratugum.


Bethina Elverdam

Fargað
Bómull, 37 x 74 cm

Farga s. ‘láta af hendi; drepa; †fara illa með, misþyrma’; sbr. nno. farga ‘pressa, þrúga’ og e.t.v. fargan h. ‘ólag,…’ (s.þ.). Uppruni óljós.

Verkið Fargað, er ljóð í textíl. Handofið á litin Lervað vefstoll, út úr afgangs uppistaða,  sem eftir situr í vefstollin þega ekki er hægt að vefa meira á hann.

Bethina er textílhönnuður með  áherslu á vefnaður og prjónaða list. Hún er lærð fata- og textílhönnuður, og er með BA gráður úr LHI. Hún stundar nám við Háskólann í Birfröst,   í Menningarstjórnun .


Annamaria Lind Geirsdóttir

“Ég er gras sagði skáldið og græ yfir spor ykkar”
Hör og linen, 100 x 70 cm

Verkið er tilvitnun í ljóðið “Verdun” eftir Matthías Johannessen sem vitnar í ljóð Steins Steinars “Gras” sem er þýðing á ljóði bandaríska ljóðskáldsins Carl Sandburg. “Grass”  Ljóðin fjalla um fyrri heimsstyrjöldina m.a. á Verdun og Ypres og hrylllinginn þar. Matthías fjallar um stemmninguna við að vera á grónum vígstöðvunum áratugum síðar. Steinn Steinarr hreifst af ljóði Carls Sandburg og þýddi það frjálslega. Carl Sandburg upplifði hryllinginn og sneri honum í ljóð. Ég er snortin af þessum ljóðum og legg til mitt verk: Ljóðlína ofin úr hör; Linum usitatissimum sem er ein konar gras.

Anna María Lind Geirsdóttir (1962) vefur yfirleitt úr tuskum en stundum notar hún önnur efni þegar tilefni er til. Vefstóllinn hefur verið miðill hennar en einnig hefur hún notað spuna bæði á snældu og rokk og aðrar aðferðir til að tjá sig.  Verk hennar eru alltaf sögur, frásagnir eða skilaboð til skoðenda verkanna enda lítur hún á myndlist sem miðil til að koma á framfæri því sem henni þykir mikilvægt m.a. loftslagsmál, nýtni og sjálfbærni.

Anna María er með MA í textíl myndlist frá University of Southampton. Heimili og vinnustofa eru í Reykjavík.