Distant Shores

Listamenn

Íslensk Textíllist í Frakklandi

Íslenska Textílhópnum, sem samanstendur af textíllistamönnunum Gerði Guðmundsdóttur, Hrafnhildi Sigurðardóttur, Kristveigu Halldórsdóttur og Ólöfu Einarsdóttur, hefur verið boðið ásamt Önnu Gunnarsdóttur textíllistamanni, að halda sýningu í Wesserling Textíllistasafninu, Mulhouse, Frakklandi. Sýningin verður ein aðalsýning safnsins árið 2008 og stendur frá 26. janúar 2008 til 11. janúar 2009.

Textílhópurinn (The Icelandic Textile Group) var stofnaður árið 2004 vegna sýningar í St. Marie Aux Mines í Alsace, Frakklandi. Þar gafst hópnum kostur á að taka þátt í fjölsóttri alþjóðlegri sýningu, en 18.000 manns frá öllum heimsálfum sóttu sýninguna á þeim fjórum dögum sem hún stóð yfir. 

Hópurinn komst m.a. í kynni við Bandaríkjamann sem hafði tengsl við sýningarsali í Wisconsin-fylki.  Þar var hópnum boðið að sýna á þremur stöðum árið 2006, í The Art and Nature Center á Washington Island, í Unitarian Universalist Church West, Brookfield, og í International Folk Fair, Milwaukee. Sýningarnar vöktu  athygli vestra og var aðsókn afar góð.

Meðlimir Textílhópsins eru allir starfandi listamenn sem hafa haldið einkasýningar hér heima og tekið þátt í fjölda samsýninga innanlands og erlendis.

Anna Gunnarsdóttir hefur tekið þátt í sýningum víðs vegar um heim, nú síðast í stærstu skúlptúr-sýningu í heimi ´´Sculpture by the Sea´´ í Sidney Ástralíu og ´´Sculpture inside´´ sem mun ferðast um Ástralíu.

Eins og áður er nefnt hefur hópnum og Önnu Gunnarsdóttur verið sýndur sá heiður að halda sýningu í einu helsta textíllistasafni Evrópu, Wesserling-safninu í Alsace, Frakklandi. Þetta mun verða stór sýning og fjölsótt, því talið er að um 35 þúsund gestir víðsvegar að sæki safnið á ári hverju. Í boðsbréfi frá forstöðumanni kemur fram að safnið vilji kynna sérstaklega íslenska nútímatextíllist árið 2008.

Patrice Dromsen Konsúll Íslands í Strassburg og Stefán Lárus Stefánsson sendiherra Íslands munu opna sýninguna. 
     
Markmið Textílhópsins og Önnu Gunnarsdóttur með þessu samstarfi við Wesserling-safnið er sameiginlegt átak til  kynningar á íslenskri nútímatextíllist á meginlandi Evrópu og munu hópurinn fara utan þann 14. febrúar nk. til að setja upp sýninguna og vera við opnun hennar.