Listasalur Mosfellsbæjar
Auður Vésteinsdóttir
VIÐMIÐ
1. apríl 2011 – 30. apríl 2011
Föstudaginn 1. apríl kl. 16 – 18 verður opnuð sýning myndlistarmannsins Auðar Vésteinsdóttur, VIÐMIÐ, í Listasal Mosfellsbæjar. Á sýningunni eru ný collageverk. Með land- og sjókortum sem leiðarstef að myndefni verkanna lýsir Auður margbreytilegum formum sem hverfult veðurfar varpar á land og sjó.
Sýningin er opin virka daga kl. 12 – 18 og laugardaga 12 – 15
Allir velkomnir – aðgangur ókeypis
Viðmið – Handan við tölur og línur land- og sjókorta er áhugaverður heimur sem vert er að skoða. Að nota mið og finna rétta stefnu er aðeins hluti af því að lesa í landið. Ferðalagið sjálft, um landið hulið snjó þar sem veður og vindar geta breytt ásýnd þess á örskotsstund, vekur löngun til að fanga augnablikið og festa í minni.
Hægt er að skoða sjókort eins og myndverk. Þau sýna landslagið á botninum en kraftmikil hreyfing hafsins dregur hugann að ótal blæbrigðum og birtingarmyndum þess.
Á sýningunni eru collageverk þar sem unnið er með kort og margvíslegan handunninn pappír í bland við örþunnt efni.