Lög Textílfélagsins 2021   Hér er pdf skjal með lögum Textílfélagsins.

1. grein

Lög Textílfélagsins 2021

Félagið heitir Textílfélagið og er félag textíllistamanna og textílhönnuða. Á ensku heitir félagið Icelandic Textile Association.

2. grein

Heimili félagsins er að Korpúlfsstöðum, Thorsvegi 1, 112 Reykjavík og starfsvið þess er allt landið.

3. grein

Tilgangur og markmið félagsins er:
a) Að stuðla að aukinni menntun textíllistamanna og textílhönnuða, að vinna að auknum skilningi og þekkingu fyrirtækja, félaga og almennings á starfi þeirra. b) Að vera fulltrúi gagnvart sambærilegum félögum erlendis og koma fram fyrir Íslands hönd á þeim vettvangi.
c) Að halda úti vefsíðu og samfélagsmiðlum félagsins og kynna þar starfsemi félagsins út á við, auglýsa viðburði, sýningar félagsmanna o.fl.
d) Að efla störf textíllistamanna, textílhönnuða og annarra á sambærilegum sviðum.

4.grein

Textílfélagið á eignarhlut í Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, áður Hönnunarmiðstöð Íslands og er aðildarfélag í SÍM, Sambandi íslenskra myndlistarmanna. Félagsmenn í Textílfélaginu verða sjálfkrafa félagsmenn í Myndstefi, Myndhöfundasjóði Íslands. Félagsmenn öðlast öll réttindi og skuldbinda sig til þess að hlíta öllum skyldum sem fylgja aðild að Myndstefi. Ef einstakur félagsmaður óskar eftir því að undanskilja sig félagsaðild við Myndstef, skal hann tilkynna félaginu það skriflega.

5. grein

Til að hafa rétt til inngöngu í Textílfélagið þarf umsækjandi að hafa lokið háskólaprófi í myndlist eða hönnun frá viðurkenndum listaháskóla eða hafa aðra sambærilega menntun samkvæmt yfirlýsingu viðkomandi skóla. Að öðrum kosti þarf umsækjandi að uppfylla fjögur af neðangreindum skilyrðum:
a) Hafa aðra menntun í myndlist (t.d. nám á framhaldsskólastigi, námskeið, einkatíma eða annað) staðfest með yfirlýsingu viðkomandi skóla eða kennara.
b) Hafa haldið eina eða fleiri einkasýningar á viðurkenndum sýningarstöðum. Staðfesting fylgi með aðildarumsókn.
c) Hafa tekið þátt í alþjóðlegri samsýningu styrktri af opinberum aðilum eða a.m.k. fimm öðrum samsýningum. Staðfesting fylgi með aðildarumsókn.
d) Hafa verið falið af dómnefnd að vinna að listskreytingu á opinberum vettvangi. Staðfesting fylgi með aðildarumsókn.
e) Eiga minnst eitt verk í opinberri eigu, keypt af viðkomandi safnráði eða matsnefnd. Staðfesting fylgi með aðildarumsókn.
f) Hafa hlotið opinberan styrk eða starfslaun tengt list sinni eða hönnun. Staðfesting fylgi með aðildarumsókn.

6. grein

Úrsögn úr félaginu ber að tilkynna stjórninni skriflega eða með tölvupósti.

7. grein

Aðalfund skal halda að vori eigi síðar en 31. mars. Skal hann boðaður með 14 daga fyrirvara með tölvupósti og á samfélagsmiðlum og bréflega ef þarf. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað þ.e. að fundarboð berist hálfum mánuði fyrir dagsettan fund.

8.grein

Formaður skal kosinn til tveggja ára í senn. Meðstjórnendur eru einnig kosnir til tveggja ára og skipta þeir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Ennfremur skal kjósa tvo varamenn til tveggja ára. Þeir frambjóðendur sem flest atkvæði hljóta í kjöri meðstjórnenda og varamanna taka sæti í stjórn.

Aldrei skulu fleiri en tveir meðstjórnendur og einn varamaður ganga úr stjórninni hverju sinni. Ef stjórnarmaður hættir stjórnarsetu áður en kjörtímabili hans lýkur skal varamaður skipa sæti hans. Ef aðalmaður boðar forföll skal boða varamann í hans stað.

9. grein

Á aðalfundi skal leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins og skýrslur stjórnar. Kjósa skal skoðunarmenn reikninga.
Stjórn skipar fulltrúa úr sínum röðum til tveggja ára í senn í: Sambandsráð SÍM, fulltrúaráð, stjórn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, fulltrúaráð Textílmiðstöðvar Íslands og stjórn Nordic Textile Art.

Kosið er í eftirfarandi nefndir til tveggja ára. Þær skipta með sér störfum eftir fyrsta fund:
-Sýningarnefnd skipa þrír til fimm félagar og einn til vara.
-Verkstæðisnefnd: Í henni situr einn fulltrúi stjórnar og þrír félagar þar af einn varamaður.

10. grein

Lagabreytingar má aðeins gera á löglegum aðalfundum og þurfa þær að hljóta 2/3 hluta greiddra atkvæða til samþykkis.
Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn félagsins þremur vikum fyrir aðalfund og skulu þær kynntar félagsmönnum með fundarboði eða eigi síðar en viku fyrir aðalfund.

Árgjald skal samþykkt á aðalfundi. Greiði félagsmaður ekki gjöld sín fyrir aðalfund missir hann atkvæðisrétt sinn þar til hann hefur greitt skuld sína við félagið. Sama á við um aðrar skuldir við félagið. Eftir eindaga reiknast almennir dráttarvextir. Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjöld í tvö ár, fellur hann sjálfkrafa úr félaginu. Sé félagsmaður í skuld við félagið getur hann ekki tekið þátt í sýningum félagsins
70 ára og eldri greiða hálft gjald.

11. grein

Lögmætir aðalfundir og félagsfundir hafa æðsta vald í öllum félagsmálum með þeim takmörkunum sem í þessum lögum felast. Félagsfundi skal halda að frumkvæði stjórnar eða ef 1/3 félagsmanna óskar þess. Félagsfundi skal boða

með minnst viku fyrirvara. Fundur er löglegur sé löglega til hans boðað og ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála.

12. grein

Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Þeir eru löglegir ef þrír stjórnarmenn sækja þá.

13. grein

Stjórn félagsins skal halda utan um fundargerðir. Ritari stjórnar varðveitir skjöl félagsins og sér um að eldri skjölum s.s. fundargerðum og sýningarskrám sé komið til Borgarskjalasafns Reykjavíkur.
Öllum sýningarskrám félagsins skal skila til Listasafns Íslands í þremur eintökum.

16. grein

Meiriháttar fjárhagslegar skuldbindingar er félaginu eða stjórn þess óheimilt að gera án samþykkis löglegs aðalfundar eða félagsfundar.

17. grein

Eignir allar á félagið sem heild og getur enginn gert tilkall til þeirra, hvorki meðan hann er félagi eða við brottför úr félaginu.

18. grein

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Textílfélagsins þann 25. mars 2021