Leitar í hefðina til að deila á hefðina
Hrafnhildur Sigurðardóttir textíllistakona hlaut Norrænu textílverðlaunin 2005. Ásgeir Ingvarsson ræddi við hana um verðlaunin, boðskap listarinnar og atvinnulistamanninn sem ætlaði að segja starfi sínu lausu.
Í LISTASAFNI Árnesinga var á dögunum opnuð sýning á verkum textíllistakonunnar Hrafnhildar Sigurðardóttur. Hrafnhildur hlaut árið 2005 Norrænu textílverðlaunin, fyrst Íslendinga og varð fimmti listamaðurinn til að hreppa verðlaunin frá því þau voru fyrst veitt árið 2000.
Sýning Hrafnhildar í Listasafni Árnesinga ber yfirskriftina Hér. „Að grunni til eru á sýningunni sömu verk og á verðlaunasýningunni sem haldin var í Borås í Svíþjóð á síðasta ári, en ég hef bætt við mörgum nýjum verkum sem ég hef unnið síðan þá, og held áfram að vinna með sama þema.“
Þemanu sem Hrafnhildur hefur gert að sínu verður kannski best lýst með umsögn dómnefndar Norrænu textílverðlaunanna: Kynjað viðhorf með konuna í forgrunni, túlkað í tilraunum með mismunandi tækni og efni.
Handverkshefð og húmanismi
Það er broddur í verkum Hrafnhildar, og margþætt gagnrýni á samfélagið: „Ég sæki í íslenska handverkshefð og nota hana til að skapa nútímaleg myndverk. Það má segja að ég leiti í hefðina til að deila á hefðina,“ segir Hrafnhildur glettin. „Ég var á tímabili mjög upptekin af feminískum pælingum og gagnrýndi þær staðalmyndir af konum sem eru á hverju strái. En ég deili líka á stríð, á alla misnotkun minnihlutahópa. Einn listunnandi sagði mig ekki femínista, heldur húmanista, og ég held að sé mikið til í því, en ég er kona og kannski ekki skrítið að ég deili á samfélagið frá sjónarhóli kvenmanns.“
Sem dæmi um þær aðferðir sem Hrafnhildur beitir má nefna verkið „Varastækkun“/“Lip Infusion“. Verkið er gert úr þunnum plastslöngum sem Hrafnhildur hefur fyllt af varalit: „Nú geturðu keypt varalit í Bandaríkjunum sem inniheldur bótox, svo þegar þú berð litinn á varirnar bólgna þær upp og verða ofsalega sexy,“ segir Hrafnhildur. „Þetta er auðvitað baneitrað: má bjóða þér að setja á þig varalit og bólgna allur upp?“
Dýrt listform
Hrafnhildur menntaði sig við textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk mastersnámi í skúlptúr við Coloradoháskóla. Verkin hennar eru því iðulega á mörkum þessara tveggja listforma: „Ég er ekki hreinræktuð textíllistakona, og í Ameríku myndi ég aldrei vera flokkuð sem slík, heldur vera kölluð „mixed-media artist“ sem vinnur í mjúka skúlptúra.“
Hrafnhildur hefur unnið við listir í hálfan annan áratug og segir ekki mikið á því að græða: „Þetta er dýrt listform að vinna með, verðlaunaféð sem fylgir Norrænu textílverðlaununum fer að mestu leyti í hráefniskostnað. Þeir spurðu mig í Svíþjóð hvað ég ætlaði að gera við peninginn, og ég svaraði eins og ameríski bóndinn sem vann í Lottóinu: „I’ll keep on farming till it’s all gone“.“
Datt ég á hausinn?
Hrafnhildur segist hafa verið alveg við að gefast upp á listamannsstarfinu þegar hún hreppti verðlaunin: „Það leið varla sá dagur að ég velti ekki fyrir mér hvort ég hefði dottið á hausinn, þegar ég ákvað að verða listamaður. Ég hef mörgum sinnum ætlað að pakka saman og segja þetta gott, eftir að hafa unnið næstum kauplaust í fimmtán ár við að skapa myndverk,“ segir Hrafnhildur. „Ég gantast stundum þegar fólk spyr við hvað ég vinn, og segist skapa menningarverðmæti í sjálfboðavinnu. Fólk verður voða hissa og spyr hvernig ég geri það: „Jú, ég er myndlistarkona“.“
Ætlaði að segja upp
Hrafnhildur hafði ákveðið að segja skilið við listina, en ekki fyrr en hún hefði þaulreynt allar leiðir. Það var þessi þrautseigja sem varð til þess að hún náði athygli Norrænu textílverðlaunanna: „Haustið 2004 gerði ég upp hug minn um að hætta þessu, en ég gat ekki hætt nema fullreynt alla möguleika til hins ýtrasta. Þetta er eins og með íþróttafólkið, sem ekki getur hætt fyrr en það er komið á toppinn. Ég byrja að senda út bréf, og athuga hvort ég geti fengið að sýna, og hvort eitthvað seljist. Ég ætlaði að herma eftir bönkunum og vera með smá útrás,“ segir Hrafnhildur með hlátrasköllum.
„Ég sá tilkynningu um að einhver Finni hefði hreppt Norrænu textílverðlaunin og fannst það forvitnilegt. Ég hafði ekki heyrt um þessi verðlaun fyrr, enda nýbreytni í textílheiminum, og sendi verðlaunanefndinni bréf. Þeir voru ósköp fegnir að heyra í mér því þeir höfðu lengi verið að reyna að komast í samband við íslenska textíllistamenn og langaði að koma hingað og skoða.“
Klapp á bakið
Hrafnhildur kemur verðlaunanefndinni í samband við Íslenska textílfélagið og fljótlega kemur sendinefnd hingað til lands og skoðar verk íslenskra textíllistamanna, Hrafnhildar þeirra á meðal: „Þegar mér er tilkynnt að ég hljóti verðlaunin hætti ég við að hætta. Ég var farin að liggja yfir atvinnuauglýsingunum þegar hér var komið sögu og ætlaði að segja upp lélegu starfi listamannsins með hátíðlegum hætti, kannski með opnu bréfi í Morgunblaðið,“ segir Hrafnhildur með og hlær, en er þó fúlasta alvara. „Auðvitað hafa verðlaunin fjárhagsleg áhrif, en umfram allt er þetta eitthvert það stærsta klapp á bakið sem ég hef fengið. Það er gerist fátt á Íslandi sem hvetur mann áfram. – Jú, þeir hæla manni, listfræðingarnir, þegar maður heldur sýningar. Ég klippi út krítíkina í Morgunblaðinu og á slæmum dögum les ég hana aftur og líður aðeins betur næsta dag. Ekki að ég hafi verið að bugast undan einhverri minnimáttarkennd, en maður hugsar oft með sér, hvort maður er á réttri leið.“
Og Hrafnhildur segir verðlaunin óneitanlega hafa haft gott kynningargildi: „Það gerðist lítið fyrstu vikurnar, en eftir nokkra mánuði fóru boðsbréfin að berast, svo verðlaunin hafa greinilega áhrif. Kannski ég pakki ekki saman í þessari viku, – slái því aðeins á frest,“ segir Hrafnhildur Sigurðardóttir og hlær.