sam(t)vinna – samsýning Textílfélagsins stendur yfir á Korpúlfsstöðum 1.-23.apríl 2023
Þar eru samtöl og samvinna meðlima sett í forgrunn. Ferli var sett af stað þar sem þátttakendum var boðið að mynda pör og vinna að því að finna sameiginlegan flöt í listsköpun sinni. Afraksturinn er margvíslegur; aðferðir, efnistök og sjónarhorn hljóta hér ýmist endurnýjun eða endurskoðun, ný verk líta dagsins ljós og eldri verk birtast í nýju samhengi.

Sigrún Halla Ásgeirsdóttir
Titill: Whizz-bang.
Efni: Akrýl á bómull og hör.
Tækni: Ofið málverk.
Stærð: 63 x 125 cm.
Ártal: 2023
Whizz-bang er ofið málverk sem er í anda þeirra vatnslitaverka sem ég hef fengist við að undanförnu þar sem ég fæst við skyntúlkun og brotakennda tilveru.

Diljá Þorvaldsdóttir
Titill: Íhaf.
Efni: Kaðall og perlur.
Tækni: Hekl.
Stærð: 60 x 60 cm.
Ártal: 2023
Kaðallinn, ívafinn hafinu og hefðinni.
Aðferðin varðveitt en efniviðurinn annar.
Glitrandi sjórinn leikur um okkur.
Það sem var, er og verður.


Maja Siska
Titill: Klæði 1 / Klæði 2.
Efni: Ull.
Tækni: handspunnið, handlitað og handofið.
Stærð: 150 x 130 cm.
Ártal: 2023
Maja vinnur með hversdagslegt efni úr nærumhverfinu sínu, í þessu tilviki ull. Í sömu höndum verður til klæði úr reyfi. Verkin eru innblásin af litaprufum Josef Albers: litirnir eru skoðaðir þegar uppistöður og ívaf mætast í vefnaði.


Þorgerður Hlöðversdóttir
Titill: Umbreyting.
Efni: Silki.
Tækni: Shibori, Lúpína, Náttúrulegt Indígó.
Stærð: 220 x 50 cm.
Ártal: 2023
I´m tired of waiting, being stuck on the verge.
Done being a caterpillar, I long to emerge.
As a beautiful butterfly, flying free in the world.
It’s all that I’ve dreamt of since I was a girl.
Ms Moem.


Kristveig Halldórsdóttir & Cristalena Hughmanick
Titill: Innsiglaður tími.
Efni: pappír úr bómullar- og hörtrefjum, bómullarþráður, bývax og trjákvoða.
Tækni: Pappírsgerð, útsaumur og vaxmálun
Stærð: 113 x 235 cm.
Ártal: 2023
Hér hefur tíminn verið stöðvaður og innsiglaður með vaxi. Verkið er eins konar ljósmynd af liðnu handverki, táknuð með lífvana hönd listamannsins sem gerði, mótaði og saumaði í pappírinn. Trefjarnar í handgerða pappírnum mynda autt blað. Eins konar tóm sem er undanfari þess sem getur orðið. En í tóminu leynist iðandi líf allra möguleika ef vel er að gáð. Pappírinn er lifandi, lífrænn og sjálfum sér nógur. Hann hefur eigin áferð í kyrrð sinni, myndar eigið landslag með dölum, hæðum og hólum og er í senn viðkvæmur og sterkur, sveigjanlegur og stöðugur.
Sumar arkirnar eru styrktar með náttúrulegum efnum: trjákvoðu og bývaxi. Útsaumur, spor, línur og litir verða að óræðum sögum þar sem lesa má milli línanna.

Ragna Fróða
Titill: Hringrás.
Efni: Blandaðu endurunninn textíll og garn.
Tækni: Stafrænn útsaumur og blönduð tækni.
Stærð: 165 x 85 cm.
Ártal: 2023

Anna Gunnarsdóttir
Titill: Hringrás.
Efni: Rafmagnskaplar og iðnaðarþráður.
Tækni: Vafningur.
Ártal: 2023

Hringrás
Verkin tengjast í gegnum orku, tækni og handverk. Tækni og handverk blandast saman. Endurunninn iðnaðarþráður, garn og lög af blönduðum textíl. Þráður á breiðum skala, hópur þráða sem myndast með því að spinna og snúa textíltrefjum í samfelldan þráð. Hendurnar tengja okkur innsæinu, sálinni og sköpunarkraftinum. Þráður, hinn ósýnilegi þráður, orkan sem tengir einstaklinga saman í gegnum hugvit og tækni.
Hringrás lífsins, eilífðin, hinn heilagi og guðlegi alheimur sem tákn um óendanlega orku. Þegar eitthvað deyr þá er öðru gefið líf. Verk sem táknar upphafið af næsta verki. Boltanum er kastað á milli, hver þráður hefur tilgang í stærra samhengi hringsásar sögu og lífs.

Guðrún Hadda Bjarnadóttir
Titill: Bruni jarðar.
Efni: Handlitað einband í uppistöðu og ívaf, tog í röggvum.
Tækni: Einskefta og röggvavefur.
Stærð: 60 x 110 cm.

Ragnheiður Þórsdóttir
Titill: Ofin einskefta / Ofið vöruvaðmál.
Efni: Einband og bómull.
Tækni: Myndvefnaður.
Stærð: 85 x 62 cm.
Ártal: 2021
Verkin tengjast saman í efni og aðferðum en við erum báðar að nota íslensku ullina þar sem Hadda leggur áherslu á einskeftu og röggvarfelds aðferðina til að ná fram sínu verki en Ragnheiður notar myndvefnað þar sem hún fer með ,,stækkunargler“ inn í tvær algengustu vefnaðaraðferðir í heiminum, einskeftu og vaðmál og vefar þær sem myndvefnað.

Annamaria Lind Geirsdóttir
Titill: Votlendisfugl.
Efni: Ofið úr tuskum.
Tækni: Vaðmálsvend.
Stærð: 67 x 106 cm.
Ártal: 2023
Til að minna á tilvist votlendsfugla sem er ógnað um víða veröld þegar búsvæði þeirra eru eyðilögð með framræslu og öðrum hætti. Fyrirmyndin er fuglinn keldusvín sem varp á Íslandi til 1970. Tvennt varð til að keldusvín gafst upp á varpi hérlendis en það var maðurinn sem að ræsti fram land og minkurinn sem að veiddi hann, en maðurinn flutti minkinn inn. Enn eru margar votlendis og víðernis fuglategundir sem að treysta á Ísland sem búsvæði til að koma upp ungum á. Þessar tegundir gætu misst búsvæði undir skóga og mannvirki.

Guðrún Kolbeins
Titill: Fuglar í hring / Páfugl.
Efni: Ull og bómull / íkatlituð ull og handlituð ullarblanda.
Tækni: Jin einskefta (þráðabrekán). Tvær uppistöður með sitthvort efni og lit sameinast. Myndformin eru plokkuð með Jin aðferð.
Stærð: 118 x 37 / 90 x 60 cm.
Ártal: 2023
Fuglar – Fuglar – Fuglar
Fuglar koma
Fuglar fara
Fuglar vera
Fuglar boða
Fuglar tákna
Verk 1. Fuglar í hring
Myndefnið er sótt í íslensku Sjónabókaina, 6 hluta og er kominn vestan af fjörðum. Tveir og tveir fuglar snúa að hvor öðrum og gæta jurtar sem í fornum heimildum er lífsins tré.
Vefnaðar tæknin er frá Han tímabilinu í Kína um 200 f Kr og nefnist „Jin einskefta (þráðabrekán).
Verk 2. Páfugl
Myndefnið er sótt í Íslensku Sjónabókina, 2. hluta.
Páfuglinn er eitt fornt tákn sem m.a. er notað um konunga og valdamikla menn. Páfuglinn í Sjónabókinni hefur ætíð vakið athygli mína og er nú kominn í vefinn.
Vefnaðar tæknin er frá Han tímabilinu í Kína um 200 f Kr og nefnist „Jin einskefta (þráðabrekán).

Guðrún Kolbeins og Anna María Lind Geirsdóttir voru settar saman að vinna verk. Þær höfðu hist áður en aldrei setið og spjallað. Fyrir þessa sýningu hittust þær tvisvar. Fyrst áður en þær ófu verkin sín og síðan þegar þær voru búnar með þau. Sameiginlegir fletir eru margir. Fyrst og fremst vefa þær báðar. Nálgunin í vefstólnum er ólík. Guðrún nýtir tækni vefstólsins til hins ýtrasta og er sífellt að kanna nýjar leiðir á meðan Anna María nýtir að sjálfsögðu tækni vefstólsins en vefur klassískan myndvefnað með tvisti þó. Þær kusu fugla sem sameiginlegt þema en vinnsla fuglanna er ólík en litagleðin er til staðar hjá báðum. Báðar fóðra þær fugla í görðum sínum og fylgjast með atferli þeirra og hafa gaman að þeim. Annað sem þær eiga sameiginlegt er nýtni. Guðrún nýtir band sem hún á og hefur fengið gefins, hún jafnvel endurlitar eftir þörfum og gefur því nýtt líf. Anna María vefur mest úr tuskum. Hún fær gefins flíkur og tau frá vinum og kunningjum sem hún sker og klippir niður í lengjur sem hún síðan vefur úr. Vefur-nýtni-litagleði.

Hrafnhildur Sigurðardóttir
Titill: Í guðsgrænni náttúrunni.
Efni: Endurunnið plast, málmur og girni.
Stærð: 150 x 60 cm.
Frá árinu 2010 hefur Hrafnhildur Sigurðardóttir að mestu notað endurunnin efni í verk sín, efni sem hún finnur á göngu sinni á ströndinni og úti í náttúrunni í hinum ýmsu löndum. Með verkunum sýnir hún okkur hvar betur mætti fara og oftast með húrmorinn og hæðnina að vopni. Hér getur að líta eitt slíkt verk úr efnivið sem safnast hefur saman hérlendis síðustu árin. Titill verksins að þessu sinni vísar í græna og óspillta nátturuna, sem við göngum ekki nógu vel um – með þeirri von að við tökum okkur öll á í þeim efnum í náinni framtíð.

Gerður Guðmundsdóttir
Titill: Aftanroði / Dagrenning.
Efni: Ull, frauðkúlur, vír.
Tækni: þæfing, eigin aðferð.
Stærð: 165 / 165 cm.
Ártal: 2023
Hugmyndir hennar spretta oftast af upplifun hennar af náttúrinni. Íslenska ullin er hennar aðalefniviður sem hún þæfir oft í voðir, þrykkir á munstur og saumar út í. Á síðustu árum hefur hún aðallega unnið þrívíddarverk. Kúlurnar feltaði hún eina af annarri á meðan hún beið eftir að covid gengi niður sl. tvö ár. Íhugaði, slakaði á og lét sig dreyma um frelsið, heita sumarsólina og birtuna framundan.


Anna Þóra Karlsdóttir
Titill: Himnalengjur.
Efni: Íslensk ull í sauðalitunum, tog og þel.
Tækni: Þæfing.
Stærð: Fjórar lengjur af 23 metrum.
Ártal: 2023


Steinunn Björg Helgadóttir
Titill: Þrjú teppi.
Efni: Einband úr íslenskri ull.
Tækni: Tvöfaldur vefnaður.
Stærð: 115 x 200 cm.
Ártal: 2010 / 2020 / 2022

Margt er ólíkt í verkunum þeirra Steinunnar og Önnu Þóru. Myndlistarverk á móti nytjaverk/handverk. Ólituð ull á móti litaðri ull og útlit allt ólíkt en sameiginlegt er að þetta er íslensk ull.
Verkin þeirra eru andstæður sem er spennandi í uppsetningu. Og til að lýsa því dettur Önnu Þóru í hug málverk eftir Þorbjörgu Höskuldsdóttur þar sem hún teflir saman náttúru og manngerðu umhverfi.


Ólöf Ágústína Stefánsdóttir
Titill: Skuggarnir heimta ljósið.
Efni: Útsaumspappir og krosssaumur, er sóttur í dyngju sískapandi móður, Sigríðar Kr. Árnadóttur, ásamt vír og ull.
Tækni: Blönduð tækni.
Ártal: 2017 – 2023
Við fæðumst með eiginleika og lifanir forfeðranna í frumum okkar. Þær hafa áhrif á líf okkar; sumar eru ljósar og algjörlega meðvitaðar á meðan aðrar hafa grafist langt niður í iður hins ómeðvitaða og aftengst meðvitundinni. Þær hafa samt áhrif á tilfinningalíf og veru einstaklingsins í hinum lifaða raunveruleika.
Dagana langa keyrum við áfram í daglegu amstri án þess endilega að velta því fyrir okkur hvað leynist í undirmeðvitundinni. Á einhverjum tímapunkti banka skuggarnir á meðvitundina og krefjast þess að koma fram í dagsljósið til krufningar á verunni sem hefur fallið af því hún aftengdist skuggunum. Eftir greiningu fæst þá nánari skilgreining á því hver hún er og hvað hún vill gera í framhaldinu, meðvituð um eiginleika sína bæði þá sterku og veiku.
Í þessu verki hafa skuggarnir fengið aðalhlutverkið og eru í myndhverfingu gína. Nú flögra þeir um í fögru, ósnortnu landslagi sem umlykur þá og tekur í sátt. Hin fáguðu fyrirbæri í lífi verunnar eru einnig í myndgerð gína. Þær dvelja innan fyrir luktum dyrum gylltra hvelfinga skúlptúrsins. Á neðstu hæðinni er lítil vera að myndast…. ný og ósnortin. Í henni sameinast greinandi, samþykktir skuggar ásamt hinu fagra fyrirbæri verunnar. Fyrirboði um styrkleika til að takast á við lífið, greina hismið frá kjarnanum og finna veginn til þess gjöfula lífs sem hentar þessari tilteknu veru.

Edda Mac
Titill: Hvíla.
Efni: Bómull.
Ártal: 2023
Flýtur ofan
Strýkst við il
Leggst í jarðveg
Hvílir um stund

Helga Rut Einarsdóttir
Titill: Flæði.
Efni: Efnisbútar, indigo litun, ryð, náttúrulegt lím, vax.
Tækni: Blönduð tækni.
Ártal: 2022
Helga sækir innblástur í listsköpun sína frá umhverfinu, samtíma viðburðum, æsku eða “fyrirbærum” sem á einhvern hátt snerta hana sjálfa og notar það sem inntak í verk sín.
Hér í þessu verki er hún að takast á við það sem var og gefa því flæði tilfinninga og minninga.
Sköpunarorka Helgu er sjálfsprottin og leiðandi þar sem hugur og hönd vinna saman. Þegar kemur að efnisvali þá er endurnýting henni efst í huga.


Sigríður Vala Vignisdóttir
Titill: Jarðlög í textíl.
Efni: bómull, hör, nælon, pappír, Remazol litir.
Tækni: Vefnaður; salún og íkat.
Stærð: 60 x 400 / 40 x 180 cm.
Ártal: 2022
Verkið Jarðlög í textíl fjallar um mismunandi blæbrigði jarðarinnar í sinni tærustu mynd. Notast er við gamlar hefðbundnar aðferðir í vefnaði; salún og íkat. Salúnvefnaður var algengur á Íslandi hér áður fyrr og má rekja allt aftur til fjórtándu aldar. Hann var mikið notaður í ullarábreiður og söðuláklæði. Íkatvefnaður var algengur í silkivefnaði á Indlandi og í bómullarofnum treflum og dúkum frá Suður-Ameríku, en þar er uppistaða lituð áður en hún er sett í vefstólinn.
Með samspili þessara tveggja aðferða sem hafa tilvísan annars vegar í málverkið og hins vegar í arfleifð okkar í vefnaði, er leitast við að túlka í efninu ólíkar áferðir jarðarinnar og skapa hugrenningatengsl. Farið er inn að kjarna jarðarinnar og upp á yfirborð, í ólíkum blæ- og litbrigðum má rýna ólík tímabil jarðsögunnar. Þar skiptast á hæðir og lægðir, harðindi, gróska og allt þar á milli.
Í vefnaðinum er tekist á við hið óvænta í vinnuferlinu. Leitast er við að vera í flæði og efninu leyft að ráða för, Mörk vefnaðar eru teygð með efnisnotkun og hann á köflum allt að því brothættur. Rýnt er í smáatriði og staldrað við, hvergi er endurtekning. Áferðin villt og ófullkomin. Rétt eins og náttúran og lífið sjálft.


Helga Rut Einarsdóttir og Sigríður Vala Vignisdóttir
Titill: Himinn og jörð.
Efni: cyan print á ryð meðhöndlað silki .
Ártal: 2023

Judith Amalía Jóhannsdóttir
Titill: Milliverk.
Efni: þel og girni.
Tækni: handspunnin ull og girni.
Stærð: 100 x 300 cm.
Ártal: 2020
Milliverk er innsetning þar sem ull og girni eru í forgrunni. Titillinn er sóttur í merkingarheim svefnherbergja og sængurfata og gefur í þeim skilningi til kynna nánd, ró, hvíld og kærleika. Orðið vekur jafnframt hugrenningartengsl við íhlaupavinnu, störf sem unnin eru á milli hefðbundinna skylduverka dagsins, og myndar þannig tengsl við þá stöðu sem handavinna kvenna hafði öldum saman og hefur kannski enn. Þráðurinn er lykilform í verkinu og lagt er upp með að spinna nýjan þráð úr þeim tveimur ólíku hráefnum sem ullin og girnið eru. Andstæðurnar í efnilsvalinu speglast með tvennum hætti: Annars vegar er það hin praktíska og alltumvefjandi ull sem hefur verið nýtt með öllum mögulegum leiðum í flíkur og nytjahluti, stóra sem smáa sem kallast á við girnið sem gefur til kynna tómstundir og lúxus. Hins vegar felast andstæður í því að ullin er sótt í íslenskt nærumhverfi en girnið er hannaður, framleiddur og innfluttur varningur. Með því að nota þessi tvö hráefni í útfærslu og framsetningu er leitast við að skapa draumkenndan og hjúpandi heim sem áhorfandinn gengur inní. Merking verksins tekur breytingum eftir því náttúrulega ljósi sem umvefur þau hverju sinni.


Auður Vésteinsdóttir
Titill: Fönn / Drífa / Mugga / Fjúk.
Efni: Ull, hör, bómull, pappír, sisal.
Tækni: Myndvefnað.
Stærð: 100 x 129 / 92 x 69 / 92 x 95 / 92 x 85 cm.
Ártal: 2020
Verkin fjalla um umbreytingar í náttúrunni sem skilja eftir sig ummerki þegar snjórinn hopar að vori, grasið grænkar og lífríkið vaknar til lífs á ný. Blæbrigði litarins er mikilvægur þáttur í verkum mínum. Ég rýni í jörðina og fanga breytilegt yfirborðið, með margskonar þráðum og efnum sem gefa ýmist mjúka, fína, grófa eða stífa áferð í vefnum.


Harpa Jónsdóttir
Titill: Draumur 2.
Efni: Bómull, silki, hör og polyester.
Tækni: listútsaumur.
Stærð: 42 x 61 cm.
Ártal: 2023
Landið er í senn draumur og veruleiki. Í frostinu felst fyrirheit vorsins, í vatninu minningar eilífðarinnar.

Bethina Elverdam
Titill: Silende regn.
Efni: Metal- og endurskynsþræðir.
Tækni: Tvöfaldur vefnaður.
Stærð: 45 x 80 cm.
Ártal: 2017
Storminn hefur lægt og hlýja sólarinnar ryður sér til rúms. Við stoppum til að njóta þessarar stundar þegar síðustu andartök stormsins dvína og logn ljóssins breiðist yfir landslagið.

Harpa og Bethina sækja báðar innblástur í náttúru og tónlist.
Lagið Hvíld eftir Huga Guðmundsson í flutningi Schola Cantorum og Harðar Áskelssonar má hlusta á hér:


Arnþrúður Ösp Karlsdóttir
Titill: Fléttur og skófir.
Efni: Hör, ull, leður.
Tækni: Útsaumur á stramma.
Stærð: 20 einingar 12 x 18 cm.
Ártal: 2023

Olga Bergljót Þorleifsdóttir
Titill: umvefja.
Efni: Hör, ull og koparvír.
Tækni: Vafningar.
Stærð: 130 x 90 cm.
Ártal: 2023

.þ.r.á.ð.u.r.
hreyfing
hendur
fingur
fléttast
þreifa
þukla
finna
skilja
hugsa
rata
íhugun
hugarró
nærvera
kyrrð
jarðlitt
gult
grænt
dimmblátt
svart
bleikt
hvítt
form
áferð
slétt
blítt
hart
mjúkt
Þ R Á Ð U R
Yfirlitsmyndir frá sýningu