Gerdur

Mynd: Morgunblaðið/Golli
Gerður að leggja lokahönd á uppsetningu sýningarinnar í Ráðhúsinu.

MORGUNBLAÐIÐ, Föstudaginn 28. júlí, 2006 – Myndlist Myndlist | Sýningin Ort í textíl opnuð í Ráðhúsinu í dag Gerjun í textíllist Eftir Jón Gunnar Ólafsson jongunnar@mbl. Eftir Jón Gunnar Ólafsson jongunnar@mbl.is „ÉG myndi orða þetta þannig að menningarstraumar frá meginlandinu og það sem er að gerast hér á Íslandi sameinist í þessum sal,“ segir Gerður Guðmundsdóttir textíllistakona um sýninguna Ort í textíl sem verður opnuð í Ráðhúsinu í dag og stendur til 15. ágúst. Á sýningunni eru verk eftir þrjár listakonur, þær Elsbeth Nusser-Lampe, Moniku Schiwy og Pascale Goldenberg, sem Gerður kynntist í Freiburg í Þýskalandi fyrir tveimur áratugum þegar hún var búsett þar. „Þá voru þær allar að byrja í myndlist. Í fyrra var ég í Frakklandi í eitt ár og tók þar þátt í nokkrum sýningum og komst að því að allir þekkja þær. Þær eru búnar að kynna sig ansi vel og eru mjög þekktar á meginlandinu. Mér fannst því kominn tími til að kynna fyrir Íslendingum hvað er að gerjast í textíllist í Suður-Þýskalandi og straumana á meginlandinu.“ Blóm, drasl og frímerki Gerður segir að listakonurnar séu nokkuð ólíkar. Nusser-Lampe leiti mikið til náttúrunnar og noti form sem finna má þar og urðu blómin fyrir valinu á þessari sýningu. „Svo er hún Pascale, hún er mjög skemmtileg. Hún safnar í poka því sem aðrir henda. Og býr svo til alveg stórkostleg verk úr því öllu saman. Hér er hún með einhverjar spýtur og drasl og maður horfir á þetta bara bergnuminn.“ Gerður segir svo að Schiwy sé örlítið jarðtengdari en hinar. Verk hennar séu samsett úr mörgum lögum og noti hún alls kyns hluti eins og t.d. frímerki. Allt mjög ólíkt Ásamt Gerði taka svo átta íslenskar listakonur einnig þátt í sýningunni. „Þetta eru mjög ólík verk. Þegar ég valdi konur til að sýna með þeim Nusser-Lampe, Schiwy og Goldenberg þá vildi ég fá konur sem eru mjög ólíkar. Við erum til dæmis hérna með skúlptúr sem er íslensk þúfa í þrívídd, með rótum og öllu og svífur um salinn. Hún er unnin á hefðbundin hátt með bandvefnaði. Svo er líka verk hérna úr glærri plastslöngu, en búið er að sjúga upp í hana vax. Þetta er alveg ótrúlegt,“ segir Gerður og tekur fram að hin verkin séu flest tvívíddarverk. „Það er þarna eitt hefðbundið bútasaumsteppi, hefðbundið að því leyti að það er unnið eftir gömlum hefðum en samsetningin er töluvert frumleg. Það er eins og fjórar árstíðir. Hér er allt unnið út frá einhverju þema. Ein vinnur með vatnið og ég er sjálf með laufblöð sem ég vinn á ull. Svo eru blóm og pappírsverk. Þetta er allt mjög ólíkt.“ Íslensku listakonurnar sem taka þátt í sýningunni eru auk Gerðar þær Anna Gunnarsdóttir, Ásdís Loftsdóttir, Hrafnhildur Sigurðardóttir, Jóna Imsland, Kristín Bragadóttir, María Valsdóttir, Ólöf Einarsdóttir og Rósa Kristín Júlíusdóttir. Samhliða sýningunni í Ráðhúsinu efna þær Nusser-Lampe, Goldenberg og Gerður til sýningarinnar Kímonóar í kaffistofunni í Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar og stendur hún einnig til 15. ágúst.